15.5.2007 | 04:39
Á sjó
Þá er maður kominn á sjóinn aftur og það er blessuð blíðan, sólskin og næs. Farfugl villtist hingað um borð í gær, lóuþræll sýndist mér, þreytulegur til flugsins og það varð hans bani. Gjörvilegur smyrill renndi sér úr háloftunum og drap þrælinn fyrir augunum á okkur þar sem við vorum að dúlla á dekkinu. Fönguleg sjón, en um leið sorgleg.
Fiskiríið er ekki upp á marga fiska hér í úthafinu nú sem stendur, um tonn á togtíma. Undanfarin ár hefur tíminn, sem nú fer í hönd, verið sá besti á vertíðinni og mönnum líst ekki á blikuna ef ekki fer að glæðast.
Nú eru kosningarnar liðnar og vonin, sem bjó í brjósti manns á kosninganótt, er liðin hjá. Enn einu sinni sitjum við uppi með íhaldið og hækjuna. Það sem helst vekur manni von er að í næstu kosningum þurkist hækjuflokkurinn út, maður getur látið sig hlakka til þess næstu 4 árin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2007 | 13:02
Leyndarmál
Nú er evróvisionið búið og enn einu sinni var ferð okkar fólks í þá hringiðu ekki til fjár. Mér fannst þessi samkunda í Helsinki hálf hommaleg og kannski engin furða þó Eiríkur segði að það væri skítalykt af útkomunni. Ég hef aldrei tekið þátt í atkvæðagreiðslu í svona keppnum, hvorki hér heima né annarsstaðar, hefur alltaf fundist þetta dæmi fyrir neðan mína virðingu, en í gærkvöldi tók ég þátt. Það var vegna þess að ég taldi, og tel enn, að ég væri með pottþétt trix. Ég greiddi Ísrael og Möltu atkvæði, ekki vegna þess að lögin þeirra væru góð, heldur vegna þess að þá fengu bestu lögin ekki atkvæði mitt. Reyndar fannst mér pípuhattarnir frá Lettlandi bestir, miklu betri en íslendingarnir. En þetta klikkaði, kannski vegna þess að ég var sá eini sem kaus svona(?). Talandi um íslendingana. Hvað voru þeir að druslast með þessa gítara og slamma og allt á sviðinu? Það heyrðist ekkert í þessu dóti þeirra, nema í drullulélegu sólói, hinsvegar heyrðist vel í strengjasveit, en hún sást ekki á sviðinu. Af hverju voru þeir ekki bara með luftgítara?
Hún er merkileg þessi leynd sem hvílir á því hvað álfyrirtækin eru að borga okkur fyrir rafmagnið. Það er eins og okkur, almúganum, komi þetta ekkert við. Við borgum bara fyrir orkuverin og svo varðar okkur ekkert um hvort þau komi til með að borga sig. En ég er viss um að ef Landsvirkjun fer að tapa á orkusölunni fáum við að finna fyrir því. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa stundum velt því upp að þetta sé afleitt, auðvitað eigi þjóðin að vita raforkuverðið, en svo þegar reynt er að ganga á þá, svara þeir alveg eins og ráðherrar og aðrir stjórnarliðar; að þeir séu bundnir þagnareið. Samt tuða þeir um að það sé verið að selja orkuna fyrir of lítið verð. Er það réttlætanlegt, (ef lágt orkuverð til stóriðju er eins mikill glæpur og sumir vilja meina), að binda menn þagnareiði til að þegja yfir glæpnum? Eru þeir, sem þegja þannig, ekki samsekir þeim sem gera samningana um lága orkuverðið? Svo eru menn hissa á launaleyndinni!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2007 | 11:08
Virðing
Fyrir nokkrum árum, þegar Guðrún Helgadóttir var einn af forsetum Alþingis, varð henni tíðrætt um minnkandi virðingu almennings fyrir þingmönnum og starfsvettvangi þeirra. Hún virtist ekki skilja, að margt sem þingmenn gerðu þá, fór fyrir brjóstið á almenningi. Það sem Alþingi og þingmenn hafa verið að gera nú, þ.e. á líðandi kjörtímabili, fer svo illa í almenning að jaðrar við krabbamein frekar en brjóstveiki og virðing almennings minnkar stöðugt. Eitt af voðaverkunum eru eftirlaunalögin sem þingmenn færðu sjálfum sér, lög sem hafa hækkað eftirlaun þingmanna um 25% umfram eðlilegar hækkanir slíkra launa og kosta landsmenn fleiri hundruð milljónir á ári, umfram það sem var 2002 og hefði með eðlilegum uppfærslum átt að gera. Þessi umdeildu lög voru, eftir mikið þras á þinginu, samþykkt af stjórnarliðum og einum þingmanni stjórnarandstöðunnar. Annað voðaverk eru lög um framlag ríkissjóðs til stjórnmálaflokka. Það var aukið um tæpan hálfan milljarð og rúsínan í því er að þeir flokkar sem ekki hafa menn á þingi fá ekki krónu, sem gerir nýjum framboðum næsta ómögulegt að bjóða fram, vegna kostnaðar sem því fylgir. Aðalrökstuðningurinn við þessi lög var sá að þegar bókhald stjórnmálaflokkana yrðu gerð opinber mætti framlag frá hverjum og einum stuðningsmanni ekki vera hærra en 300 þús. krónur. Mér fannst vanta í umræðuna og rökstuðninginn sannanir fyrir því að einhverjir, og þá hverjir, hefðu lagt fram meira en þessa upphæð. En þetta mál vafðist auðvitað ekki fyrir þingmönnunum, frekar en önnur þegar þeir þurfa að skera sér sneið af þjóðarkökunni og samþykktu þeir allir að landsmenn hefðu bara gott af því að borga starfsemi flokkanna. Enn eitt, sem ekki eykur virðingu fyrir Alþingi, er tengdahneysklið. Mál sem tengist umhverfisráðherra landsins og hefði umsvifalaust leitt til afsagnar ráðherrans ef gerst hefði í öðru landi. Í einhverju blaði las ég það nú um s.l. helgi að 10 rúmenum hefði verið vísað úr landi vegna betls og skorts á landvistarleyfi. Ég spyr, hversvegna höfðu þessir rúmenar ekki samband við Hækjuflokkinn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2007 | 21:57
Stofnfundurinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2007 | 09:27
Tengdahneysklið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2007 | 11:41
Og hinir
Um íhaldið ætla ég ekki að skrifa. Íslandshreyfingin er svona óánægjuframboð, sem á svo sem rétt á sér en ég held það nái ekki inn á þing núna, kannski eftir 4 ár. Aldraðir og öryrkjar eru með réttindamálaframboð og ná ekki inn á þing. Ég skil eiginlega ekki hverjum datt þetta framboð í hug. Það er mikil bjartsýni að búast við því að fólk sem hefur kosið "sinn" flokk alla sína ævi fari að breyta til á síðustu árunum. Nema það fólk hugsi eins og íhaldsmaðurinn sem lá á banalegunni og bað son sinn að skrá sig í Samfylkinguna. "En pabbi," sagði sonurinn undrandi. "Þú sem ert einn af aðalmönnunum hjá íhaldinu, þingmaður fyrir flokkinn og flokkurinn verið þér allt. Hvernig dettur þér í hug að yfirgefa hann núna?" Gamli maðurinn glotti og sagði: "Jú, sjáðu til sonur minn, það er betra að einn af þeim deyji, en einn af okkur."
Frjálslyndi flokkurinn er nauðsynlegur á þingi, ef ekki fyrir sjávarútvegsstefnu sína, þá fyrir það að þingmenn hans hafa talað tæpitungulaust um menn og málefni. Hverjum öðrum en þingmanni F-listans hefði dottið í hug að segja að nefndarmenn Allsherjarnefndar væru að ljúga varðandi tengdahneysklið? Flokkurinn hefur fengið ómaklega umfjöllun vegna stefnu sinnar í innflytjendamálum. Feministapakkið, sem ekki fékk boðsmiða á klámráðstefnuna og vil meina að það sé rétta pakkið til að fjalla um klám, reis upp til handa og fóta og kölluðu þingmenn flokksins rasista fyrir það eitt að vilja tempra innflutning útlendinga til landsins, en gleymdu því hinsvegar að útlendingum frá þriðja heims ríkjum er bannað að flytja hingað. Það er orðið hart að lifa í þessu landi ef ekki má minnast á innflytjendamál án þess að vera kallaður rasisti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2007 | 21:59
Bestir!!!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2007 | 14:21
Til hamingju með daginn !!
1. maí er í minningunni mesti hátíðisdagurinn. Þegar ég var gutti á Siglufirði hlakkaði mig óskaplega til þessa dags því þá fékk maður að bera fána og ganga í takt í skrúðgöngu undir tónlist Lúðrasveitar Siglufjarðar. Það var um að gera að mæta snemma niður í Þróttarhús við Gránugötuna svo maður næði í rauðan fána, dagurinn var hálfeyðilagður ef maður þurfti að dröslast með þann íslenska. Rauðu fánarnir voru baráttufánar. Fánarnir, sem við börnin fengum að bera, voru mun minni en þeir sem fullorðnir báru og þegar öll fánaborgin var komin á ið upp Gránugötuna, í áttina að Torginu, leið manni eins og maður væri partur af einhverju stórkostlegu, sem maður vissulega var, þó maður gerði sér ekki almennilega grein fyrir því þá. Ræðuhöld dagsins fóru held ég alveg framhjá mér á þessum árum, enda aðalspenningurinn ekki fyrr en þeim lauk, ætli maður hafi ekki bölvað í hljóði þessum köllum og kellingum sem þurftu að tala og tala og teygja lopann, að manni fannst. Aðalnúmerið var kvikmyndasýningin í Suðurgötu 10. Þar voru gjarnan sýndar magnaðar skrípómyndir og svo var skotið inn nokkrummyndum af "velheppnuðum" landbúnaðarafrekum Sovétmanna þar sem aðalleikararnir voru vel bústnar og sólbrúnar traktorsmeyjar og brilljantíngreiddir soldátar í sumarfríi að hjálpa til við að fullkomna afrekið.
Nú mörgum, árum síðar, er baráttudagur verkalýðsins alveg jafnhátíðlegur fyrir mér, þó ekki mæti ég í kröfugöngur, enda sjálfsagt erfitt að fá fána til að bera. Nú er ég meira gefinn fyrir ræðuhöldin og dagurinn nær hámarki þegar ég heyri Nallann, það klikkar ekki að ég fæ gæsahúð þegar ég heyri það lag. Það fer jafnvel um mig sæluhrollur við tilhugsunina um hve miklu verkalýðsbaráttan hefur áorkað í gegn um tíðina. Ef það fólk, sem fyrrum lagði sig fram í baráttunni, hefði ekki staðið sig í stykkinu þá værum við á sama plani og Bandaríkjamenn þar sem eru lélegustu almannatryggingar í vestrænum heimi, þar sem skólakerfið er varla til nema fyrir þá ríku og þar sem eymd og volæði ríkir hjá almennum borgurum. Dagurinn í dag fyllir mig þakklæti til verkamanna- og kvenna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2007 | 22:58
Hinir
Þó ég sé vinstri sinnaður er ekki þar með sagt að ég gleypi við öllu sem flokkarnir á vinstri kantinum segja og gera. Margt gott hafa þeir í gegn um söguna gert, en líka margt miður gott. Það eitt að þeir hafi ekki náð að sameinast, þegar það var reynt síðast, er blettur á sögu þeirra og beinlínis svekkjandi að það skuli vera fyrrum félagar mínir úr Alþýðubandalaginu sem hafi komið í veg fyrir það. Þessir félagar mínir, sem sífellt töluðu um ólýðræðisleg vinnubrögð hægri flokkana, gátu sem sagt ekki fellt sig við lýðræðið þegar á hólminn var komið í sameiningunni, sáu fram á að verða undir í formannskjöri í Samfylkingunni og hættu þá við og stofnuðu VG. Sá flokkur er svo kapítuli út af fyrir sig. Mér sýnist einna helst að þar sé á ferðinni afturhalds sinnaður þykjukommaflokkur, einskonar ríkiskapitalistar, sem virðast vera á móti öllum framförum, gott ef ekki á móti sjálfum sér þegar allt kemur til alls. "Á móti framförum," segir einhver. " Hvað með stefnuskrána, ekki bendir hún til þess?" Nei rétt er það, en orð eru bara orð, hvað sem hver segir og hvað VG áhrærir grunar mig að þau verði aldrei neitt meira. Fyrir svo utan það að VG á stærstan þátt í því að Þórólfur Árnason, besti borgarstjóri sem verið hefur í Reykjavík, hraktist úr embætti. Menn segja kannski að það hafi verið vegna þáttar hans í olíusvindlmálinu, en hvað þá með þátt VG þingmannsins,(man aldrei hvað hann heitir), í tengdahneyskli umhverfisráðherrans nú á dögunum? Á hann ekki að segja af sér? En þá er það hinn vinstri flokkurinn, Samfylkingin. Lítið finnst mér hún skárri, bara ekki alveg að gera sig. Mér finnst formaðurinn, (forkonan), ferlega hallærisleg(ur) og talar einhvernveginn þannig að það virðist endalaust hægt að snúa út úr orðum hennar. Eitthvað svo spæld alltaf og reið þegar hún kemur fram í sjónvarpi að maður nennir ekki að hlusta á hana og skiptir yfir á eitthvað annað, jafnvel auglýsingar á annarri rás, allt er skárra. Ég vorkenni henni blessaðri að þurfa að standa í þessu þrasi, það á ekki við hana, til þess er hún ekki nógu orðheppin enda orðhenglar eins og "umræðupólitík" og "framkvæmdapólitík" ekki beint líklegir til vinsælda. En gallar formannsins eru ekki einu gallarnir sem Samfylkingin þarf að burðast með. Það er m.a. stór galli á flokknum hve leiðinlegt fólk velst í valdastöður innan- og á vegum hans og svo hrikalega ótrúverðugt, það er hreinlega á þarnæsta plani ofan við hækjuna; maður nennir ekki að hlusta á það og trúir því allsekki. Ég held að næst á dagskrá hjá Samfylkingunni sé að losa sig við formanninn, stokka upp í yfirstjórn flokksins og hætta að tala niður til fólks, en það hefur einmitt verið stíll ráðamana í flokknum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2007 | 11:46
Hrokadraugurinn
Í fyrsta blogginu minntist ég á andstyggð mína á hækjunni,(Framsókn), og er ég var að koma bókunum mínum fyrir í síðustu viku rakst ég á bókina Fjarri hlýju hjónasængur efti Ingu Huld Hákonardóttur, þá rifjaðist upp fyrir mér ein af ástæðunum fyrir óbeit minni á þessum flokki. Þessa bók ættu allir að lesa. Hún kom út 1992 en á svo sannarlega erindi enn í dag. Mannfyrirlitningin í íslenska bændasamfélaginu fyrr á öldum var svo svakaleg að ýmislegt sem við lesum og heyrum um óréttlæti í mörgum vanþróuðum ríkjum í dag er eins og sunnudagaskóli í samanburði. Bændur nauðguðu vinnukonunum miskunarlaust, giftu þær einhverjum vinnumanna sinna og komu þeim fyrir á einhverju kotbýlinu og héldu svo áfram að nauðga þeim í skjóli þess að þeir áttu kotið. Eignalaust fólk mátti ekki giftast. Athyglivert er að vegna þvermóðsku bændastéttarinnar er talið að iðnbyltingin hafi orðið heilli öld seinna hér á landi en í Evrópu. Fólki var bannað samkvæmt lögum, sem bændur settu, að setjast að í þéttbýliskjörnum. Mannfyrirlitning, þvermóðska og hroki bændastéttar fortíðarinnar er einmitt aðalástæða andstyggðar minna á hækjunni og svo endurómaði þessi hroki í viðtali við umhverfisráðherra í Kastljósi á föstudagskvöldið s.l. Hún ætlaði þar að beita vinsælasta trixi pólitíkusa í viðtölum; að svara ekki spurningum fréttamanns. Lengi vel komst hún ekki upp með það og Helgi Seljan gaf sig ekki, marg endurtók spurningu sína, án þess að fá svar, og þetta var farið að líta út eins og hörkurifrildi, sem það og var, en svo var eins og einhver hefði kippt í spotta; Helgi hætti að ítreka spurninguna og ráðherrann fékk að halda sínu striki, að segja ekki neitt í langri ræðu. Hver kippti í spottana? Var það gamla bændasamfélagið að rukka inn einhverja pólitíska greiða? Eða var það bara þessi gamla samtrygging fjórflokksins, ekkert má gefa eftir, halda bara áfram að juða á fókinu, það gleymir þessu hvort sem er fljótlega. Hvað sem það var, er niðurstaða mín sú að umhverfisráðherra á skilyrðislaust að segja af sér vegna þessa máls. Hún á ekki að koma í sjónvarpið og reyna að stilla sendiboðanum upp til aftöku. Hún á að viðurkenna brot sitt og segja af sér, en það gerir hún örugglega ekki, hún man nefnilega ekki betur en að fólk hér á landi er fljótt að gleyma, svo fljótt jafnvel, að sumt af því kýs hana bara af því að hún var í sjónvarpinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar