Minnisleysi-fyrirgefning syndana.

Við íslendingar erum alveg einstaklega gleymnir, sérstaklega á mál er við koma pólitík, afbrotum manna í valdastöðum og svindli. Það er engu líkara en við njótum þess að láta troða á okkur, andlega og líkamlega. Ég hef t.d. ekki heyrt á það minnst að viðskipti landans við veitingahús hafi minnkað um krónu, frekar aukist, ef eitthvað er, þó veitingamenn hunsi lögboðaða lækkun virðisaukaskatts á m.a. matvöru o.fl. Samkvæmt skoðanakönnunum eykst fylgi við íhaldið í komandi kosningum þrátt fyrir að flokkurinn standi sem fastast vörð um hið undur óforskammaða eftirlaunakerfi alþingismanna og ráðherra. Svo birtast pólitíkusarnir kjaftagleiðir og skælbrosandi á sjónvarpsskjánum og þrátta um ekki neitt og vona að þjóðin hafi fyrirgefið þeim þó þeir hafi stolið sér, með löglegum hætti, auðvitað,(hæg heimatökin á þeim bænum), eftirlaunum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Til að gæta sannmælis verð ég að taka það fram hérna að allir stjórnmálaflokkar áttu þátt í setningu laganna um eftirlaunin. Stórfyritæki, eins og olíufélögin eru sýknuð af svindli, sem þau þó höfðu játað á sig, og svo fara þau í mál við ríkið vegna sektar sem þau höfðu fengið á sig vegna brotsins á þeirri forsendu að sektin hafi verið of há, félögin hefðu ekkert grætt á olíusamráðinu. Þetta gera félögin eflaust í þeirri trú að landinn sé búinn að gleyma því að svindlað hafi verið á honum og að félögunum sé fyrirgefið. Þingmaður var dæmdur fyrir þjófnað frá þjóðinni og sat í fangelsi fyrir brot sitt en nú er hann kominn aftur, bísperrtur, enda búinn að bíta það í sig að afbrotið hafi verið tæknileg mistök, og allar líkur til þess að hann verði aftur þingmaður. Landinn virðist hafa fyrirgefið, eða gleymt afbrotinu. Minnisleysi okkar er algert og fyrirgefningin blífur. Þrælpínd og pískuð þjóðin suðar í faðirvorum sínum til Mammons um fyrirgefningu skuldanna, (meinar það ekki), en er heltekin af að fyrirgefa skuldunautunum, eða gleyna syndum þeirra,(og meinar það). Ég er auðvitað engu betri, hef sennilega gleymt helling af svindli og afbrotum og svínslegri framkomu pólitíkusa í minn garð. Svona er þatta bara.


Fundur

Í gær var ég á afar merkilegum fundi ásamt fáeinum félögum mínum frá Hafliðaárunum. Bjössi Birgis hafði fengið þá hugdettu í höfuðið að safna peningum til þess að láta smíða líkan af síðutogaranum Hafliða SI 2 og gefa Síldarminjasafninu á Siglufirði til minningar um þá menn sem á skipinu störfuðu. Þetta var svo sem ekki fyrsti fundurinn okkar, áður höfðum við hist á Aski og slafrað í okkur á meðan við sögðum sögur og svo var aðeins minnst á líkanið. Í gær hittumst við hjá Gunnari Trausta í húsakynnum Merkismanna og enginn matur til að dreifa huganum, utan nokkrir kexpakkar sem einn af félögunum tæmdi samviskusamlega. Líkan, eins og það sem við höfum í huga, er ekkert smáverkefni að smíða. Það verður um 1,5. metra langt og byggt eftir ströngustu kröfum næmra minninga, teikningum sem við höfum aflað okkur frá Sjóminjasafninu í Hull á Englandi og svo auðvitað ljósmyndum.  Til stendur að setja upp heimasíðu og þar verða settar inn sögur og upplýsingar um skipið, listi yfir þá menn sem verið hafa á skipinu og fleira. Við vonumst til þess að fá sem flesta til samstarfs við okkur um þetta þjóðþrifamál og að sem flestir taki upp budduna og gefi til verksins fáeinar krónur því þetta gerist ekki án þess að peningar komi við sögu enda gert ráð fyrir að svona líkan kosti allt að 2 milljónum króna.

En þetta er sem sagt að fara af stað og hlakka ég mikið til.


Vitleysa

Ég var að tala um það hve mér fyndist þjóðfélagið allt vera á vitlausri leið og gott dæmi um það er umræðan um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Það á ekki að þurfa að ræða um svona lagað, bara að drífa sig í að koma stöðinni upp. Atvinnuástandið fyrir vestan er þannig að 500 störf við stöðina vega vel upp þá mengun sem hún er talin blása út i andrúmsloftð. Talandi um mengun; ég var á ferðinni á Teneriffe fyrir páska, allt í lagi með það, sól og blíða, enda eyjan auglýst sem paradís og stendur vel undir nafni, sérstaklega ef maður kemur þangað úr kuldanum hér heima. Loftið tært og hreinlætið mikið. En, það er olíuhreinsunarstöð á Teneriffe!!!  Þangað er olía flutt frá Afríku, hreinsuð og síðan flutt út í heim. Staðsetningin gerir það að verkum að bensín er hvergi lægra í Evrópu en á Teneriffe. Er það ekki einmitt það sem okkur vantar á Íslandi; ódýrara bensín? Jújú, segja allir, en svo kemur forsjárhyggjuliðið og prédikar um mengun og gróðurhúsalofttegundir og komast upp með það án þess að sýna fram á nokkra einustu sönnun, máli sínu til stuðnings. Við, sem eigum bara venjulega bíla, eigum að fara að borga hærri skatta en þeir sem aka um á vetnis- og rafmagnsbílum, borgarfulltrúar eru að truflast í hreinsunarátaki loftsins og rétt hinu megin við lífshornið er útblástursskattur flugfélaganna. Og hvar eru svo sannanirnar fyrir því að við íslendingar séum að keyra lífríki heimsins til helvítis?: Hlýnun!!! Það hefur hlýnað á landinu um einhverjar míkrógráður og skelfingin hefur gripið forsjárhyggjuliðið hreðjartökum. Sveimérþá, það mætti halda að þjóðin væri búin að vera í frystigeymslu alla sína hunds- og kattartíð. Það er eins og það hafi aldrei hlýnað á Íslandi. Það er hreinlega engu líkara en hér verði helst að bresta á ísöld til þess að menn sætti sig við lífið. Ef einhverjum dettur í hug að hann geti byggt og búið í ósnortinni náttúru án þess að hún breytist hið minnsta við þá búsetu er sá hinn sami fífl.  Slíkt er útilokað, eða dettur einhverjum í hug að heiðlóan haldi áfram að verpa, þá væntanlega undir húsum og bílastæðum, á holtum og hæðum Reykjavíkursvæðisins? Umræða um mengun á vissulega rétt á sér, en hún verður að vera í hlutfalli við vilja þjóðarinnar til að búa á landinu. Það er allt í lagi að vera á móti mengun, en ofstæki og forsjárhyggja hjálpar ekki, a.m.k. ekki vestfirðingum til að bæta atvinnuástandið.

Snillingur

Já, mér finnst ég vera snillingur eftir að mér tókst að blogga eina setningu!! Ég er nefnilega svo vitlaus hvað varðar allt viðkomandi tölvum, en þetta tókst sem sagt hjá mér. Góður!!!!

Ástæða þess að ég tek mér fyrir hendur að blogga er fyrst og fremst hvað mér finnst allt heila þjóðfélagið vera á vitlausri leið. Nú skrifa ég eins og það sé eitthvað merkilegt að ég hafi skoðanir á þjómálum, að mínar skoðanir séu eitthvað merkilegri en annarra og að þessvegna sé nauðsynlegt að ég bloggi og gefi þar með almenningi tækifæri til þess að lesa þessar skoðair mínar, sem auðvitað er sannleikanum samkvæmt. En, látum það liggja milli hluta. Ég er hinsvegar á móti ríkisstjórninni, á móti íhaldsflokknum og algerlega á móti hækjunni (Framsókn). Hef verið vinstri sinnaður alla mína tíð og skammast mín sko hreint ekkert fyrir það. En því get ég lofað, mér og öðrum, að ef Samfylkingin, sem ég hef stutt frá stofnun þess flokks, að ef Samfylkingin fer í samstarf eftir kosningar með íhaldinu eða hækjunni þá kýs ég þann flokk aldrei aftur. Ég hef svo mikla andstyggð á hækjunni að þegar Ólafur Ragnar,(gamall hækjukall) gerðist formaður Alþýðubandalagsins sáluga, þá sagði ég mig úr þeim flokki. Þetta eru auðvitað alvarlegar hótanir, þ.e. að kjósa aldrei Samfylkinguna aftur, en mér finnst enn alvarlegra ef flokkurinn svíkur kjósendur sína með því að fara í samstarf með aðilum sem hann hefur barist gegn í áratugi.

Þetta er sem sagt færsla númer 2.


Til að byrja með

Já, hvað skrifar maður svona í fyrstu færslu?

« Fyrri síða

Höfundur

Kristján S Elíasson
Kristján S Elíasson

Sjómaður

I´ll Walk a mile

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband