Færsluflokkur: Bloggar

Hitt og þetta

Það er svólítið erfitt að blogga héðan, netið tollir svo illa inni og svo stutt í einu að það hálfa væri nóg, elsku dúllan mín, eins og hún Jóhanna myndi orða það.

Í morgun heyrði ég viðtal á RUV við félaga mína þá Gunnar Trausta, Bjössa Birgis og Leif Jóns um líkanasmíðina. Komust þeir vela að orði og sagði Gunnar skemmtilega sögu af viðureign þeirra Gylfa Ægis og Axels Sciöth stýrimanns um borð í Hafliða í dann.

Mér finnst fréttin í gær um hundamálið á Akureyri sorglega fyndin og eiginlega allt í kring um þennan blessaða hund, og raunar aðra hunda sem virðast allt gera til þess að komast frá eigendum sínum. Drengurinn, sem nafngreindur var í þessu hundamáli stuttu eftir meint dráp á hundkvikindinu, hefur mátt ganga í gegn um hræðilega tíma til þess að reyna að afsanna sinn meinta þátt í málinu. Eigandi hundsins og allir henni nákomnir, svo og þeir akureyringar, sem "sáu" þegar hundurinn var drepinn, eiga skilyrðislaust að biðja drenginn afsökunar. Það hefur nefnilega komið í ljós að hundsspottið er bráðlifandi, hann langaði bara út á lífið á þjóðhátíðarhelginni og hefur greinilega ekki séð ástæðu til að fara aftur til eiganda síns, kannski ekki liðið vel hjá stelpu sem á svona auðvelt með að ljúga upp á náunga sinn. 


Malbik í matinn

Jæja, maður getur nú varla sagt annað. Fréttirnar af rosalegum niðurskurði þorskkvóta við Ísland eru áfall. Og aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru enn meira áfall. Sértækar aðgerðir til að draga úr áhrifum þessa niðurskurðar eru m.a. að flýta vegaframkvæmdum og bæta símasamband úti á landi! Hahahaha!!!! Maður grenjar af hlátri þegar maður heyrir þetta. Hvað er í gangi? Á fólkið sem, unnið hefur í fiski á landsbyggðinni, að éta malbik þegar það má og fær ekki að verka fisk? Á það að hafa símasambandið í eftirrétt. Notalegur asskoti, eða hitt þó heldur, að geta sest niður eftir malbiksátið og tekið upp tólið, hlustað og lagt það svo frá sér, saddur og ánægður, hlýtur að vera toppurinn á tilverunni. Svo má ekki gleyma því að ríkisstjórnin ætlar líka að bæta aðstöðu fiskverkakvenna úti á landi til endurmenntunnar. Þá spyr maður sig hvort það sé eitthvert vit í því að endurmennta fók úti á landi sem fær hvort eð er enga vinnu, hvort sem það er endurmenntað eða ekki. 

Það er svo spurning af hverju þarf að skera niður eftir ríflega 20 ára uppbyggingu þorskstofnsins? Hvað hefur brugðist og hversvegna?


Úr Barentshafi

Nú erum við komnir enn austar í Barentshafið, 70°21 og 39°41. Það eru 2600 kílómetrar til Reykjavíkur og beint í suður af okkur er Moskva í 884 km fjarlægð. Veiðin er ekkert sérstök og veðrið er endalaus þoka.

Undarlegt upphlaup Keflvíkinga í og eftir leik þeirra við Skagamenn er efst á baugi í íþróttaumræðunni hér um borð. Það skal viðurkennt að mark Bjarna var dálítið óvenjulegt, eða öllu heldur aðstæðurnar þegar hann skorar markið, en það er greinilegt að hann átti ekki von á að skora, það sést á látbragði hans. Það er hinsvegar algert rugl að ætla Skagamönnum að gefa Keflvíkingum mark, bara af því að markvörður þeirra var langt úti á velli í stað þess að vera á milli markstanganna. Læti Keflvíkinga eftir leikinn eru kapítuli út af fyrir sig og vonandi sjáum við ekki meira af slíku í íslenskri knattspyrnu í framtíðinni.


Atkvæðavesen

Jæja, þá er Solla stirða komin heim úr kosningaferðalaginu til Afríku og var bara nokkuð ánægð með árangurinn, að mér skildist á viðtali við hana. Hvort hún náði í einhver atkvæði veit ég ekki en mitt atkvæði er farið að lafa heldur lauslega við Sf. eftir að lengra líður frá myndun ríkisstjórnarinnar. 'eg batt mikla vonir við ríkisstjórn Sf og íhaldsins en þær vonir dofna, mér liggur við að segja, með hverjum deginum sem líður. Enn hefur Ísland ekki verið tekið af lista yfir "hina staðföstu", þ.e. þá sem studdu, og styðja, innrás amríkana í Írak. Man ekki betur en það hafi verið krafa Sf á síðasta vetri að Ísland yrði tekið af þessum lista og því átti ég von á að það yrði gert þegar Sf var komin í ríkisstjórn. Solla talaði að vísu við amríska sendiherrann og einhvern pótintáta að westan og sagðist hafa sagt þeim að íslenska ríkisstjórnin liti ástandið í Írak alvarlegum augum. Ég meina; hver sér eitthvað skoplegt við ástandið í Írak? Ekki ég og ég efast stórlega að Ingibjörg Sólrún sjái eitthvað fyndið í því að þúsundir eru drepnar í borgarastríðinu í Írak sem amríkanar komu af stað með aðstoð og stuðningi íslendinga. En hún verður að segja eitthvað allt annað, af því að hún hefur látið íhaldið múlbinda sig og það er helvíti skítt, þó ekki sé dýpra í tekið árinni. Svo er nú annað sem gerir það að verkum að atkvæðið er farið að hanga lauslega við Sf, en það er aðgerðin hennar Jóhönnu gömlu, að skerða lán Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80%. Sú aðgerð er fyrst og fremst til þess fallin að fólk hefur ekki efni á að kaupa sér húsnæði, nema þá úti á landi. Þetta er kannski landsbyggðatrikk Sf?

Lambasteik á veiðum

Núna eru 2500 kílómetrar í beinni línu til Íslands, en við erum aðeins sunnan við nyrsta hluta Noregs og því er siglingalínan talsvert lengri og hér er enn svarta þoka. Lofthitinn er 5,4°og sjávarhitinn 6,4°, enginn baðhiti það og ber lítið á hlýnun vegna gróðurhúsalofttegunda. Veiðin er ágæt á köflum, dálítill hittingur, eins og gengur og gerist en það virðist sama hvar togað er, það er allsstaðar fiskur, mismikið af honum, auðvitað.

Enn og aftur er kolefnisjöfnunarbrandarinn ofarlega í huga mér. Er nema von að maður hugsi aðeins um þetta rugl; þetta dynur á manni eins og útsöluauglýsingar í útvarpinu, já, og sjónvarpinu líka. Við erum svo asskoti tískuvæn, íslendingar. Allt sem er í tísku er okkar, og meira til. Það sem er ekki, og hefur kannski aldrei verið, í tísku í útlöndum nær hæstum hæðum hjá okkur og fólk gleypir sumt af þessu tískudóti eins og glóðvolgar pylsur og kyngir öllu kjaftæðinu, jafnvel án þess að fá sér kók. Talandi um kók. Hafiði tekið eftir því að hver einasti megrunarkúr, hver einasta megrunarhugmynd, sem verið er að selja trúgjörnu og illa stöddu of feitu fólki byggist upp á hreyfingu? hver einasti(a)! Og það er einmitt lausin; hreyfing, göngutúr er lausin á offituvandamálinu, ekki þetta bull um að éta meira af ávöxtum, grænmeti, kolvetni og hvað þetta drasl allt nefnist. Ég hef aldrei verið mikill ávaxta- né grænmetiskall, ég borða þetta dót með mat og stundum finnst sumum að ég borði ekki nóg af þessu, en ég svara bara eins og einn kunningi minn þegar hann var að borða lambalæri og einhver hafi á orði að hann borðaði ekki nó grænmeti með lambinu. Hann sagði: Þessi rolla, sem lærið er af, borðaði gras alla sína ævi og sjáðu hvernig er komið fyrir henni!!! Í alvöru. Hreyfing er málið og með þeim orðum hætti ég þessu bulli, þarf að hvíla mig.


Af andrúmslofti

Í síðasta bloggi skrifaði ég eitthvað um tískubóluna og brandarann kolefnisjöfnun. Það eru víst ekki allir sammmála um að þessi brandari virki og verð ég að teljast einn af þeim. Ég á líka bágt með að trúa, eins og nýju neti, að þessar hamfarir sem spáð er vegna mengunar gangi eftir og skil hreinlega ekki hvað veldur því að menn leggist í að gera svona spár, nema auðvitað að það sé til þess að auka það fé sem til þessa hefur verið lagt í rannsóknir á andrúmsloftinu og áhrifum mannfólksins á það. Helvíti finnst mér það lágkúrulegt ef satt er, en hvað gera menn ekki til þess að halda vinnunni. Um áhrif mannfólks á andrúmsloft þarf ekki að deila, a.m.k. ekki innandyra, en svo er spurning hvernig fólk vill upplifa þessi áhrif. Sumir vilja ekki tóbaksreyk inni í sínum húsum, það er vel skiljanlegt. Sumum er hreinlega í nöp við að fólk njóti einhvers yfirleitt. Þessum sömu hefur nú tekist að virkja forsjárhyggju ríkisvaldsins og nú er bannað að reykja á veitinga- og skemmtistöðum, það er að sumu leyti skiljanlegt, en mér finnst það óskiljanlegt að veitingamönnum sé ekki í sjálfsvald sett hvort þeir leyfi reykingar í sínu húsnæði eður ei. Nú heyrast sögur af því að aðalvandamálið á skemmtistöðunum nú sé svitalykt og önnur ólykt af fólkinu sem sækir þessa staði. Annaðhvort hefur reykingalyktin deyft þessa líkamslykt af skemmtihúsagestum eða fólk er hætt að þrífa sig eftir að reykingar voru bannaðar. Líka er til í dæminu að nú séu þeir, sem viðkvæmir eru fyrir tóbakslykt, farnir að sækja skemmtistaðina og vonda lyktin sé af þeim. Hvers eiga þá þeir að gjalda sem finnst reykingalyktin betri en svitalyktin? Eigum við von á lögum um bann við áberandi mikilli svitalykt á skemmtistöðum? Verða kannski settir upp klefar þar sem úðað er á fólk ilvatni, nokkurskonar svitalyktareyðar, eða verður tekinn upp siður frá gamalli tíð, þegar fólk þreif sig ekki nema á vorin og fyrirmenni gengu um með ilmvatnssteinkaða vasaklúta fyrir vitum sér svo þeir fynndu ekki ólyktina af pöpulnum? Þetta eru áhrif á andrúmsloftið innandyra, góð eða slæm, fer auðvitað eftir hverjum og einum, en persónulega finnst mér lykt af tóbaksreyk betri en súr svitalykt, sorrý, svona er ég bara.

Langt í burtu.

Netsambandið er dálítið skrýtið hérna á Venusi; það næst ekkert samband ef við erum á austurstefnu og varla á suður- og norðurstefnu. Vesturstefnan er best og nú erum við að toga í vestur.

Þá ætla ég loks að gera tilraun til þess að skrifa á bloggið mitt eins og eina færslu.  Ég er staddur í Barentshafi, nákvæmlega á 70°N og 37°A sem er helvíti langt í burtu frá heimaslóðunum. Núna er svarta þoka og norðaustan golukaldi og frekar lítið um að vera á slóðinni. Það eru hér mörg skip, 5 norsk, 4 færeysk og dágóður helingur af pínulitlum rússneskum, hálfgerðum snurvoðapungum, líkastir dráttarbátum í laginu. Hér erum við um 70 mílur frá næsta landi og þykir mér þessir pungar vera nokkuð langt frá landi, ef gerði brælu, en slík veður eru víst sjaldgæf hér norður frá á sumrin. Talandi um veður. Enn dynja á heimsbyggðinni fréttir af náttúruhamförum, ef hamfarir skyldi kalla. Rigningar hér, þurkar þar, og skýrslur frá hinum og þessum stofnunum um hvílíkar hamfarir bíði fólksins á jörðinni í framtíðinni, ef ekkert verður að gert. Það þarf að flytja fólk svoleiðis milljónum saman út og suður og gefa því að éta vegna uppblásturs og þurka og annarra náttúruhamfara. En það dettur engum í hug að taka kalla eins og Mugabe og flytja hann í aðra veröld. Hann er búinn að gera Simbabve, sam áður var auðugt land og sjálfu sér nægt, að enn einu betliríkinu í Afríku, og sver sig vel í ætt við aðra afríska höfðingja. Svo situr Solla utanríkis á samkundu með þessum afrísku þjóðarmorðingjum og þykir það bara allt í lagi; þeir ætla nefnilega "kannski" að styðja framboð Íslands til öryggisráðs SÞ. Djísús! Maður hefði trúað því upp á ráðherra íhaldsins að sitja svona samkomur og guma af því, en að fulltrúi Sf skuli sækja slíka mafíusamkomu, því hefði ég átt erfitt með að trúa, allavega fyrir kosningar.

Þessar náttúruhamfarir eiga víst að stafa af auknum gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu og ef menn hætta ekki að menga, eins og þeir gera í dag, verður ólíft á jörðinni eftir nokkur hundruð ár. Þessir spádómar minna mig dálítið á heimsendaspárnar sem maður heyrði í útvarpinu næstum árlega í gamla daga, venjulega frá einhverjum spámönnum, sem í dag teljast misheppnaðir spámenn. Og svo heyrði maður líka af svona smáhópum sem svo gersamlega trúðu á orð spámanna sinns að allir frömdu sjálfsmorð vegna þess að spámaðurinn sagði að það þjónaði engum tilgangi að lifa lengur á jörðinni, allt væri hvort sem er að fara til fjandans. Þetta var auðvitað klikkað lið, að manni fannst. Í dag veltir maður fyrir sér hvort þeir sem halda fram heimsendi venga mengunar séu slíkir spámenn. En , ekki er allt alslæmt. Íslenskir kaupsýslumenn eru búnir að finna lausnina: Kolefnisjöfnun!! Mér finnst þetta kolefnisjöfnunarkjaftæði vera einhver hræðilegasti brandari sem lengi hefur heyrst. Allir verða að kolefnisjafna og borga fyrir það dágóða summu, en það besta við það er að margir trúa því að ein veimiltítuleg hrísla geti kolefnisjafnað einhvern skapaðan hlut, hún á ábyggilega fullt í fangi með að halda lífi í sjálfri sér, þó hún fari ekki að bjarga heiminu frá enn einum heimsendinum.


Kominn í land

Jæja, þá er maður kominn í land eftir 3ja vikna reisu á Reykjaneshrygginn. Árangurinn er tæplega fullfermi af úrvals úthafskarfa. Það bilaði hjá okkur serverinn fyrir internetið og því hef ég ekkert getað bloggað, mér til mikillar armæðu. Ég hafði nefnilega hugsað mér að vera með ofurgáfulegt blogg um stjórnarmyndunartilraunirnar og afleiðingar þeirra, en sem sagt allt bilað og meira að segja virkaði síminn ekki heldur. Maður er svo sem ekkert að kippa sér upp við svona bilerí, búinn að vera á sjó í 40 ár og kynnast mörgum alvarlegri bilunum, bæði á tækjum og mönnum.  Stjórnarmyndunin tóks bærilega og væntir maður mikils af þessari stjórn.

Gaman að segja frá því hér að strákarnir í Hafliða-félaginu hafa ekki setið auðum höndum á meðan ég veltist um á hafinu. Fóru í rannsóknarferð í Víkina og mér skilst að þeir séu búnir að finna mann til að smíða líkan af Hafliða. Ekki nóg með það, heldur hafa þeir stofnað félag til þess að hefja fjársöfnun til líkanasmíðinnar og sett upp heimasíðu, si2.is.

 


Að losna við hækju

Það er óþægilegt að vera með hækju. Ég hef að vísu aldrei reynt það sjálfur, en konan mín þurfti að ganga við hækju fyrstu 2 mánuði ársins og henni leið ekkert of vel að þurfa að dandalast með þessa aukahluti. Svo sér maður líka þjáningarsvipinn á Dorrit með þessi hjálpartæki. Mér heyrðist á fréttunum í kvöld, vera léttir í rödd Geirs forsætis þegar hann tilkynnti að íhaldið væri laust við hækjuna. Konan mín var líka fegin þegar hún losnaði við sín hjálpartæki. Hvað framtiðin ber í skauti sér í samstarfi íhaldsins og Sf, ef af verður, er ekki gott að segja. Verður Ísland tekið út af lista hinnna staðföstu þjóða? Verður uppbygging íslenska hersins í Afganistan stöðvuð? Verður stóriðjuskriðan stöðvuð? Þessar og margar fleiri spurningar poppa upp og svo læðist að manni ótti um að Sf verði kannski bara stafur hjá íhaldinu, en maður reynir að hrista af sér drungann og vera bjartsýnn um góð ár framundan nú þegar þjóðin er laus við hækjuna.

Fréttabombur?

Stjórnarmyndunarviðræðurnar sem nú standa yfir virðast ekki eins spennandi og fréttamenn reyna að gera þær. Hækjuformaðurinn er margbúinn að reyna að hrista fréttamenn af sér og hefur margtekið fram að þeir, þ.e.a.s. hækjurnar, séu bara að vinna vinnuna sína og það þurfi að gera það. En fréttamenn láta ekki slá sig út af laginu og troða bara hljóðnemanum nær andliti formannsins. Það virðist ekki hafa þau áhrif sem þeir vildu helst, sem sé að formaðurinn talaði af sér eða upplýsti þjóðina um einhver dörtí bissness leyndó hækjunnar. Alltaf jafnleiðinlegt þegar reynt er að búa til fréttir, gera eitthvað voðalega vinsælt, þegar meirihluti þjóðarinnar lætur sig það litlu varða hvort hækjurnar eru á fundi eður ei. Allir hvort eð er búnir að fá leið á framsóknartuðinu. Hins vegar miklu meira spennandi að vita hvort Sf eða Vg tekst að komast undir íhaldssængina og menn velta því fyrir sér hvort þá verði vörugjöld og tollar á landbúnaðarafurðir felld niður og maður geti loksins farið að rifja upp gamla lopabragðið af innfluttu lambakjöti og magarínbragðið af útlenska smjörinu. 

Það er enn við það sama hér í úthafinu, þó smá breyting. Veiðin er léleg en það er að versna veðrið. Spáin upp á einhverja tugi metar í vindi og ekki finnst manni því á bætandi. Svona er þó bara lífið; skin og skúrir. Ég held maður taki þó hressandi kaldann fram yfir tilbúnar fréttasprengjur.


Næsta síða »

Höfundur

Kristján S Elíasson
Kristján S Elíasson

Sjómaður

I´ll Walk a mile

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband